Þeir sem hafna störfum á grundvelli trúarskoðana eiga ekki að halda áfram að fá atvinnuleysisbætur eða aðrar bætur frá ríkinu. Þetta segir Robert Erikson, atvinnu- og félagsmálaráðherra Noregs. Borið hefur á því að innflytjendur í Noregi sem eru á bótum hafni störfum sem hafa með svín eða áfengi að gera vegna trúarbragða sinna.
Þá hefur borið á því að konur af erlendum uppruna hafni störfum á sjúkrahúsum þar sem karlmenn eru sjúklingar og að þær neiti að klæðast öðru en fatnaði sem hylji allan líkamann, þó það henti ekki í störfum þeirra.
„Skattgreiðendur eiga ekki að greiða fyrir trúarlega sannfæringu annarra. Ef maður er vinnufær og fær tilboð um starf, en neitar að þiggja það vegna trúarlegrar sannfæringar, þá getur maður ekki búist við því að þeir sem borga skatt haldi manni uppi. Þá verður fólk að bjarga sér án þess,“ segir Erikson í samtali við norska dagblaðið Aftenposten.
Hann leggur á að þetta eigi ekki einungis að gilda um atvinnuleysisbætur, heldur allar aðrar félagslegar bætur. „Markmiðið er að fá fólk inn á vinnumarkaðinn, ekki festa það í félagslegri aðstoð.“
Erikson vill endurskoða allt bótakerfið í Noregi með það í huga að fjölga fólki á vinnumarkaði.
Talsmaður norska útlendingaeftirlitsins segir í samtali við Aftenposten að senda þurfi innflytjendum í Noregi skýr skilaboð um að ætlast sé til þess að þeir sem það geti fari út á vinnumarkaðinn.
Solveig Horne ráðherra innflytjendamála segir að gera eigi sömu kröfur til innflytjenda og annarra. „Þeir bera ábyrgð á að sjá fyrir sér eins og aðrir,“ segir hún. „Ef þú kemur til Noregs og ætlar að búa í þessu samfélagi, þar sem áfengi er löglegt, þá verður að sætta sig við það. Enginn á að geta hafnað starfi vegna trúarbragða eða klæðaburðar.“