Norðmaðurinn Thorbjorn Ludvigsen sigraði í árlegu kapphlaupi upp tröppur skýjakljúfsins Empire State Building í New York í gær. Hann rann skeiðið á tíu mínútum og sex sekúndum, en þetta er hans fyrsti sigur í hlaupinu.
Ástralinn Darren Wilson var annar á tíu mínútum og 21 sekúndu.
Suzy Walsham frá Ástralíu var fljótust í kvennaflokki en hún hljóp upp 86 hæðir á ellefu mínútum og 57 sekúndum.
Um 500 manns tóku þátt í hlaupinu sem var haldið í 37. sinn.
Konurnar lögðu fyrstar af stað en karlarnir héldu síðan á eftir. Mikill troðningur var í upphafi hlaupsins þegar keppendurnir reyndu að ná sem bestri stöðu.
Keppendur hlaupa samtals upp 1576 þrep frá anddyri byggingarinnar og á efstu hæð byggingarinnar. Ekki var hlaupið út á útsýnispallinn í ár vegna slæms veðurs.