Sjón í hópi rithöfunda sem mótmæla stöðu mannréttindamála í Rússlandi

Sjón.
Sjón. mbl.is/Kristinn

217 heimsþekktir rithöfundar frá um 30 löndum, þeirra á meðal Sjón, Nóbelsskáldið Günter Grass, Salman Rushdie, Margaret Atwood, Jostein Gaarder og Sofi Oksanen handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, skrifa undir opið bréf til Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta sem birt er í breska dagblaðinu The Guardian í dag. Í bréfinu eru fordæmdar þær hömlur sem nýleg lög setja tjáningarfrelsinu.

Rithöfundarnir bætast þar í sístækkandi hóp fólks víða að úr heiminum sem gagnrýnir stöðu mannréttindamála í Rússlandi, en þau hafa verið í brennidepli að undanförnu ekki síst vegna vetrarólympíuleikanna í Sotsjí sem settir verða á morgun.

Í bréfinu fordæma rithöfundarnir nýlega samþykkt lög þar sem „áróður fyrir óhefðbundnum kynferðislegum samskiptum“ er bannaður meðal ungs fólks. Þá fordæma þeir líka lög sem kveða á um að guðlast sé refsivert. Að auki hafa lög um ærumeiðingar verið hert mjög.

„Þessar þrjár lagasetningar ógna tjáningarfrelsi rithöfunda og við getum ekki staðið þögul hjá og horft á rithöfundum og blaðamönnum þröngvað til þagnar, eða að þurfa að búa við það að hljóta harðar refsingar fyrir það eitt að tjá hugsanir sínar,“ segir í bréfinu.

Nóbelsskáldin skrifa undir

Auk Grass skrifa þrjú önnur Nóbelsskáld undir bréfið; þau  Wole Soyinka, Elfriede Jelinek og Orhan Pamuk. Rússneski rithöfundurinn Lyudmila Ulitskaya skrifar einnig undir, en hún er talin vera einn framsæknasti rithöfundur Rússa um þessar mundir. 

Ulitskaya segir að rússnesk stjórnvöld reyni að koma á sameiginlegri menningarlegri hugmyndafræði sem minni á margan hátt á Sovét-tímann.

Í bréfinu hvetja rithöfundarnir rússnesk stjórnvöld til að afnema fyrrgreindar lagasetningar, þar sem þær drepi niður frjálsa tjáningu. Þeir krefjast þess að rússnesk yfirvöld standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar á sviði mannréttinda og pólitískra réttinda. Bréfið er hluti af herferð PEN, alþjóðasamtaka rithöfunda, þar sem athygli er vakin á þeim hömlum sem lagðar hafa verið á tjáningarfrelsi í Rússlandi frá því að Pútín komst þar til valda.

PEN, sem eru alþjóðasamtök rithöfunda, vekja athygli á þeim hömlum …
PEN, sem eru alþjóðasamtök rithöfunda, vekja athygli á þeim hömlum sem lagðar hafa verið á tjáningarfrelsi í Rússlandi frá því að Pútín komst þar til valda. www.pen-international.org
Sofi Oksanen, handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Sofi Oksanen, handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert