Meirihluti ungra Ítala á aldrinum 18-34 ára býr heima hjá foreldrum sínum samkvæmt nýjum tölum frá ítölsku hagstofunni, eða 61,2%, en tölurnar miðast við árið 2012. Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.it að það sé fjölgun um 31 þúsund manns frá árinu á undan sem einkum er rakin til bágborins efnahagsástands á Ítalíu og tilheyrandi atvinnuleysis.
Flestir sem búa hjá foreldrum sínum eru einhleypir einstaklingar sem hafa ekki efni á því að búa einir eða hafa neyðst til þess að flytja aftur heim til foreldra sinna að sögn hagstofunnar. Rúmur helmingur ítalskra karlmanna á aldrinum 25-34 ára býr hjá foreldrum sínum eða 52,3% samanborið við 35% kvenna.
Þá segir í fréttinni að tölurnar þurfi ekki að koma á óvart í ljósi þess að atvinnuleysi á Ítalíu sé 12,7% um þessar mundir og 41,6% í aldurshópnum 15-24 ára. Ennfremur segir að há húsaleiga og litlir möguleikar á að eignast eigið húsnæði neyði vaxandi fjölda ungra Ítala til þess að vera lengur í foreldrahúsum.