Nokkrir uppreisnarmenn úr röðum súnní múslíma létust þegar foringi þeirra var að sýna þeim hvernig nota eigi sprengjubelti til sjálfsvígsárása. Fyrir mistök handlék hann raunverulegt sprengiefni. Atvikið átti sér stað í dag norður af Bagdad, höfuðborg Íraks.
Uppreisnarmennirnir eru liðsmenn samtakanna ISIS, sem stendur fyrir Íslamska ríki Íraks og Sýrlands, sem berjast fyrir stjórnarhermenn í Anbar-héraði Íraks, en herinn er að mestu skipaður sjía-múslímum. Þetta kemur fram á vef New York Times.
Liðsmenn ISIS hafa einnig verið bendlaðir við árásir sem hafa verið gerðar annars staðar í landinu, en trúarbragðaátök hafa færst í aukana að undanförnu í landinu.
Alls létust 22 liðsmenn ISIS við sýnikennsluna í dag og 15 til viðbótar særðust að sögn lögreglu og hersins.
Á svæðinu fundust fleiri sprengiefni og þungavopn.
Þá voru átta uppreisnarmenn handteknir er þeir gerðu tilraun til að flýja.