Karlmaður, sem skaut ungan blökkumann í Flórída til bana því hann spilaði of háa tónlist, segist hafa gert það í sjálfsvörn. Þetta kom fram við réttarhöldin í gær.
Michael Dunn, 47 ára, var ákærður fyrir að myrða hinn 17 ára gamla Jordan Davis á bensínstöð í nóvember árið 2012.
Dunn sagði við réttarhöldin í gær að hann hefði óttast um líf sitt er hann skaut á bíl sem í voru fjögur svört ungmenni. Hann segist hafa farið til ungmennanna og beðið þau að lækka í tónlistinni og í kjölfarið hafi rifrildi byrjað.
Í frétt Sky er haft eftir Dunn: „Ég bara hugsaði: Guð mun góður, hvaðan kemur þessi fjandsemi?“ segist Dunn hafa hugsað. Þá sýndist honum eitt ungmennanna draga upp byssu.
Lögreglan hefur ekki fundið nein ummerki eftir byssu í bílnum og þau þrjú ungmenni sem lifðu árásina af hafa segjast aldrei hafa hótað Dunn.
Dunn segist hins vegar hafa verið örvæntingarfullur er hann náði í byssu sína úr hanskahólfinu, því eitt ungmennanna hafi farið út úr bíl þeirra og nálgast hann.
„Núna kemur hann og drepur mig, kemur og lemur mig. Hann lét alveg í ljós hverjar fyrirætlanir hans voru,“ sagði Dunn í réttarsalnum um hugsanir sínar á þessari stundu.
Þá segist Dunn ekki hafa vitað að hann hefði skotið Davis fyrr en hann fór aftur á hótelið sitt og sá fréttir í símanum sínum. Hann segist ekki hafa haft strax samband við lögregluna því hann vildi fá ráðleggingar frá nágranna sínum fyrst.
Mál Dunns og Davis hefur vakið mjög mikla athygli vestanhafs og er nú borið saman við það þegar nágrannavörslumaðurinn George Zimmerman skaut þeldökkan ungling til bana í fyrra. Það sem skilur málin helst að er að Dunn var handtekinn mjög fljótlega eftir skotárásina og færður í gæsluvarðhald. Nokkrar vikur liðu áður en Zimmerman var handtekinn.