Ein mynd tengd ólympíuleikunum í Sotsjí hefur valdið usla í Líbanon og það er ekki mynd af fáklæddum Rússlandsforseta, Vladimír Pútín, heldur af líbönsku skíðakonunni Jackie Chamoun berbrjósta.
Samkvæmt BBC er Chamoun 22 ára gömul og nánast óþekkt í heimalandinu sem og annars staðar fyrir utan þá sem fylgjast grannt með skíðaíþróttinni þar til nú. Ástæðan er einföld; gömlum myndum af henni þar sem hún sést berbrjósta í fjalllendi Líbanons var lekið á netið.
Íþróttamenn njóta ekki mikils fjárhagsstuðnings hjá stjórnvöldum í Líbanon en þar fær ráðuneyti íþróttamála nánast ekkert úthlutað á fjárlögum. Íþróttamennirnir þurfa því að treysta á sjálfa sig þegar kemur að fjármögnun iðkunar íþrótta. Það þótti því ánægjulegt að sjá tvo keppendur frá Líbanon við setningarathöfnina í Sotsjí, samkvæmt frétt BBC.
Jackie Chamoun, 22 ára, keppir í svigi og stórsvigi á ólympíuleikunum en hún og önnur líbönsk skíðakona höfðu setið fyrir í myndatöku fyrir þremur árum vegna útgáfu á austurrísku dagatali með myndum af skíðafólki af báðum kynjum. Dagatalið kom út í fyrra en fleiri myndum og myndböndum var síðan lekið á netið nýverið sem meðal annars sýna Chamoun fáklædda.
Óttast að myndirnar skaði ímynd Líbanons
Myndirnar vöktu litla gleði meðal ráðamanna í Líbanon og hefur ráðherra íþróttamála krafist rannsóknar á málinu og að gripið verði til viðeigandi aðgerða til að koma í veg fyrir að ímynd Líbanons bíði hnekki.
Ekki eru allir sammála ráðherranum og hafa ýmsir velt upp spurningunni um hvort aðalhneykslið sé ekki viðbrögð ráðamanna í Líbanon.
Eða eins og laganeminn Nathalia skrifar á Facebook: Stórfrétt í Líbanon. Skíðakona á vetrarólympíuleikunum sat fyrir berbrjósta á austurrísku dagatali fyrir þremur árum! Rannsókn á málinu er í gangi ... Frábært að vita hver forgangsröðin er ...
Hefur jafnvel verið sett upp facebooksíða til stuðnings Jackie Chamoun og hefur fólk birt myndir af sér hálfnöktu á síðunni.
Chamoun skrifar sjálf á Facebook í gær að hún vilji upplýsa þá sem hafa dreift myndunum af henni á netinu að það sé rétt að hún hafi setið fyrir á myndum austurríska dagatalsins en myndirnar sem nú sé verið að dreifa séu ekki þær sem birtust opinberlega á dagatalinu.
Myndbandið og myndirnar sem nú eru í umferð eru frá undirbúningi myndatökunnar og áttu alls ekki að birtast opinberlega.
„Ég vil biðja ykkur öll afsökunar. Ég veit að Líbanon er íhaldssamt land og þetta eru ekki myndir sem endurspegla menningu okkar. Ég skil fullkomlega ef þið viljið gagnrýna þetta,“ skrifar Chamoun á Facebook og biður fólk um að hætta að dreifa myndunum. Með því geti það hjálpað henni við það sem skipti máli núna, þjálfunin og keppnin á ólympíuleikunum.