„Ef þú dregur konu niður stiga á hárinu ertu sá fjórði sem verður fyrir valinu inn í NFL-deildina. Ef þú ekur fullur og drepur einhvern ertu velkominn. Leikmenn sem nást á hótelherbergjum með vændiskonum og með ólögleg fíkniefni, við vitum að þeir eru velkomnir. Leikmenn sem eru sakaðir um nauðgun og borga konunni fyrir að láta málið niður falla, ef þú lýgur að lögreglunni til að hylma yfir vegna morðs finnst okkur það í lagi. En elskir þú annan karl hefurðu gengið of langt.“
Þetta segir bandaríski fréttamaðurinn Dale Hansen á ABC-sjónvarpsstöðinni um viðbrögð yfirmanna og þjálfara í NFL-deildinni við yfirlýsingu ruðningsmannsins Michaels Sams um að hann sé samkynhneigður. Sam hefur átt góðu gengi að fagna í háskólafótboltanum en komist hann í NFL-deildina verður hann fyrsti opinberlega samkynhneigði leikmaður deildarinnar. Í viðtölum hafa þjálfarar deildarinnar m.a. sagt að það væri óþægilegt fyrir aðra leikmenn að hafa homma í búningsklefanum.
Hansen rifjar upp að stutt sé síðan fullyrt hafi verið að svartir leikmenn ættu ekki upp á pallborðið í NFL-deildinni, „því það væri óþægilegt. Og jafnvel eftir að þeir máttu spila með liðu mörg ár þar til þeir voru gerðir að leikstjórnendum. Því okkur fannst það líka óþægilegt“.
Hansen segir að sjálfum finnist honum ekki alltaf þægilegt þegar karlmaður segist vera samkynhneigður. „Ég skil ekki hans heim. En ég skil að hann er hluti af mínum.“
Fréttamaðurinn segir að vonandi sé komið að því að samkynhneigðir verði samþykktir af samfélaginu. Tímabært sé að fagna fjölbreytileikanum. „Þegar ég hlusta á Michael Sam trúi ég því að það sé tímabært að samþykkja hann núna.“
Frétt mbl.is: Truflar homminn hjartsláttinn?