Alþjóðleg friðargæsla í Mið-Afríkulýðveldinu hefur brugðist í því að koma í veg fyrir þjóðernishreinsanir gegn múslímum í vesturhluta landsins. Þetta kemur fram í skýrslu Amnesy International.
Þar segir, að fólskulegar árásir af hendi vopnaðra hópa, sem kalli sig Anti-balaka, séu liður í þjóðernishreinsunum gegn múslímskum minnihlutahópnum í Mið-Afríkulýðveldinu. Afleiðingin sé fjöldaflótti múslíma af sögulegri stærðargráðu.
Amnesty segir að það ríki neyðarástand í Mið-Afríkulýðveldinu sem krefjist skjótra viðbragða. Friðargæsluliðar þar verði að vernda almenna borgara, senda sveitir á hættusvæði og stöðva þvingaða brottflutninga.
Í desember síðastliðlum samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að senda friðargæsluliða til landsins vegna hættuástandsins. Í landinu eru 5.500 friðagæsluliðar frá Afríkusambandinu og 1.600 franskir friðagæsluliðar og eru þeir staðsettir í höfuðborginni Bangui og í bæjum norðan og suðvestan af borginni.
Fram kemur í skýrslunni, að alþjóðlegar friðargæslusveitir hafi verið svifaseinar til að vernda múslíma í hættu og leyft Anti-balaka að fylla upp í valdatómið sem hafi myndast við fráhvarf Seleka.
Ofbeldið, hatrið og óstöðugleikinn nú eru beinar afleiðingar af því þegar hersveitir Seleka, sem eru að mestu múslímar, hófu vopnaðar árásir í desember 2012 og náðu völdum í mars 2013. Þá tæpa tíu mánuði sem Seleka voru við völd báru þeir ábyrgð á fjöldamorðum, aftökum án dóms og laga, nauðgunum, pyndingum, ránum og eyðileggingu kristinna þorpa, að því er segir í skýrslunni.