Talið er að íslamski öfgahópurinn Boko Haram standi að baki morðum á yfir 100 þorspbúum í Izghe í norðaustanverðri Nígeríu.
Þingmaður á svæðinu segir að hann hafi þegar fengið þær upplýsingar að 106 menn hafi verið teknir af lífi, þeirra á meðal öldruð kona. Hann segir að þegar sé búið að jarða um 60 þeirra sem létust. Hann segir að árásir hópsins verði sífellt tíðari og umfangsmeiri.
Fjöldamorðið var framið í gær, laugardag en þorpið er að mestu byggt kristnu fólki. Þúsundir hafa fallið frá því að uppreisn íslamista í landinu hófst árið 2009.
Bónda sem býr í þorpinu tókst að sleppa lifandi frá árásarmönnunum með því að skríða á maganum eftir jörðinni í um fjörutíu mínútur. Hann segir að árásarmennirnir hafi gengið hús úr húsi og smalað fólki saman. Hann segir mennina hafa komið á sex vörubílum og á mótorhjólum. Þeir hafi verið klæddir í hermannabúninga.
„Þeir létu fólk safnast saman á einum stað og byrjuðu að slátra því.“ Engir lögreglumenn voru staddir í þorpinu er árásin átti sér stað.