„Það er mín persónulega skoðun að evrusvæðið ætti að verða að Bandaríkjum Evrópu.“ Þetta sagði Viviane Reding, dómsmálastjóri Evrópusambandsins og varaforseti framkvæmdastjórnar sambandsins, í ræðu sem hún flutti í lagadeild Cambridge-háskóla í Bretlandi í dag. Sagði hún sterk rök hníga að því að koma á fjármálalegu bandalagi og að lokum pólitísku sambandi („poltical union“).
Fjallað er um ræðuna á fréttavef Guardian. Þar segir að Reding hafi vitnað í Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sem hafi árið 1946 kallað eftir því að myndað yrði sambandsríki á meginlandi Evrópu. Líkt og Churchill sagðist hún hins vegar telja að Bretland ætti að standa utan þess. Hins vegar ættu Bretar að vera áfram nánir bandamenn sambandsríkisins. Tilgangur Bandaríkja Evrópu ætti að vera að koma á stöðugleika á evrusvæðinu sagði Reding.
Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar fyrir Evrópusambandið sem birtar voru nýverið eru 45% íbúa sambandsins sammála því að það ætti að þróast í að verða sambandsríki. Þar af 34% frekar sammála og 11% mjög sammála. Rúmur þriðjungur, eða 35%, er því hins vegar andvígur og þar af 22% frekar andvíg og 13 mjög andvíg.