Tvær ítalskar herflugvélar flugu í fylgd við farþegaflugvél Ethiopian Airlines af öryggisástæðum þegar kom í ljós að aðstoðarflugmaðurinn hafði rænt farþegaflugvélinni og ætlaði sér að fljúga til Sviss. Það vakti athygli að svissneski flugherinn sendi enga flugvél til móts við farþegavélina. Nú í kvöld gáfu yfirmenn flughersins síðan loks skýringuna á því: Flugránið átti sér stað utan skrifstofutíma flughersins og því engin leið að ræsa út herflugvélarnar.
Svissneski herinn hefur til afnota töluverðan herflugvélaflota sem samanstendur m.a. af F-18 og F-5 Tiger herflugvélum. Þær eru hins vegar aðeins aðgengilegar á skrifstofutímum, frá 08:00 - 12:00 og svo aftur frá 13:30 - 17:00. Flugránið átti sér stað eldsnemma, um klukkan 06:00. Laurent Savary, talsmaður svissneska hersins, segir þjóðina treysta á herflugvélar nágrannaríkjanna þegar skrifstofurnar í Sviss eru lokaðar. Hann segir það standa til að lengja opnunartíma skrifstofunnar, en að það muni sennilega ekki gerast fyrr en árið 2020 þegar ætlunin er að skipta út öllum flugflotanum fyrir hinar sænsku Gripen herflugvélar.
Sjá frétt mbl.is: Ræninginn hótaði að brotlenda vélinni
Sjá frétt mbl.is: Flugræninginn reyndist vera aðstoðarflugmaðurinn