Fyrsti kvenritstjóri landsins

Somayya Jabarti, nýr ritstjóri Saudi Gazette
Somayya Jabarti, nýr ritstjóri Saudi Gazette Facebook

Somayya Jabarti má ekki aka bifreið í heimalandi sínu en nú tekur hún við ritstjórn eins stærsta dagblaðs Sádi-Arabíu, Saudi Gazette. Verður hún fyrsta konan sem gegnir ritstjórastöðu í landinu þegar hún nú tekur við af læriföður sínum, Khaled Al Maeena. „Mig hefur dreymt um það lengi að fá að sjá konu stíga inn í hina allt of karllægu ritstjórastétt,“ sagði Al Maeena. Hann segir Jabarti hafa sýnt það í störfum sínum fyrir blaðið að hún á starfið fyllilega skilið. 

Blendin viðbrögð við ráðningunni

Margir á samfélagsmiðlum hafa hrósað blaðinu fyrir ráðninguna en ekki er enn vitað hvernig hin íhaldssama Arabíuþjóð tekur ráðningunni. Jabarti sjálf segir í viðtali við CNN að hún geri sér fyllilega grein fyrir því að það verði ekki allir sáttir við ráðninguna. „Ég á mikið verk fyrir höndum en þetta er aðeins byrjunin,“ sagði Jabarti.

Hún hóf blaðamannsferil sinn hjá fréttastofunni Arab News undir stjórn Al Maeena árið 2003. Þar vann hún sig upp í starf sem aðstoðarritstjóri áður en bæði hún og Al Maeena færðu sig um set yfir á Saudi Gazette árið 2011. Saudi Gazette er ensk-arabískt dagblað sem kemur daglega út í um 47 þúsund eintökum. 

Frelsi blaðamanna ábótavant

Jabarti á ærið verk fyrir höndum en samkvæmt upplýsingum frá Blaðamönnum án landamæra er frelsi blaðamanna í Sádi-Arabíu með því lakara sem gerist í heiminum. Samtökin hafa áður fjallað um handtökur og refsingar á þeim blaðamönnum sem fjalla um viðkvæm mál í landinu, til að mynda trúmál og réttindi kvenna. Sama dag og fréttin um ráðningu Jabarti birtist í blaðinu birti blaðið frétt upp úr ummælum talsmanns menningarmálaráðherra landsins. Hann hótaði að loka fyrir netútgáfu ákveðinna dagblaða ef þau birtu efni sem teldist móðgandi fyrir íslam.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert