Blóðugt kvöld í Kænugarði

Blóðugir bardagar geisa nú í Kænugarði en mótmælin sem staðið hafa yfir síðustu daga hafa farið stigvaxandi. Lögreglan umkringdi í dag tvö svæði þar sem mótmælendur höfðu komið sér fyrir. Að sögn Lesyu Orobets, stjórnmálamanni úr stjórnarandstöðunni, þá hafa óeirðarsveitir meðal annars hent handsprengjum inn í hóp af mótmælendum. Alls hafa sjö mótmælendur og þrír lögreglumenn látið lífið í bardögunum í dag. 

Tími aðgerða kominn?

Utanríkisráðherra Þýskalands, Franz-Walter Steinmeier, segir að sögn BBC að tími sé kominn fyrir Evrópusambandsríkin að hefja aðgerðir gegn þeim sem bera ábyrgð á ofbeldinu. 

Óeirðarlögreglan í Kænugarði reynir þessa stundina að komast inn í hús sem hefur verið bækistöð mótmælenda undanfarna mánuði. Margir eldar loga nú við bygginguna. Húsið var auk þess að vera bækistöð, notuð undir hjálparstarf en þar gátu mótmælendur fengið sér heita máltíð og hlý föt. 

Mótmælendur í öðrum borgum taka við sér

Að sögn dagblaðsins Kyiv Post hafa mótmælendur í tveimur öðrum borgum í Úkraínu, Lviv og Ivano-Frankivsk, ráðist inn í lögreglustöðvar í borginni. Mótmælendur mættu mótspyrnu á hvorugum staðnum. Borgirnar tvær eru vestur af Kænugarði, á svæðum sem sögulega séð eru hallari undir Evrópu heldur en Rússland. Janúkóvítsj, forseti Úkraínu, sækir stuðning sinn að mestu í austurhluta landsins. 

Á vef Verdens Gang, vg.no má sjá beina útsendingu frá Frelsistorginu í Kænugarði 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert