Fréttir berast nú af því að Viktor Janúkóvitsj hafi haldið neyðarfund með Vitalij Klitsjkó, leiðtoga mótmælenda. Talið er að Janúkóvitsj muni tjá sig opinberlega um ástandið innan skamms. Um 18 manns eru nú látnir í bardögum óeirðarlögreglu og mótmælenda í Kænugarði og hafa mótmæli nú sprottið upp víðar um landið.
Óeirðarlögreglan reynir nú að komast inn á Frelsistorgið með því að beita m.a. öflugum vatnsbyssum. Þeim er svarað með bensínsprengjum (molotov-kokteilum). Heyra má þjóðsönginn spilaðan og sunginn hástöfum á torginu í mannmergðinni.
Samkvæmt upplýsingum CNN hafa mótmælendur ráðist á skrifstofur ríkisstjórnarinnar í Kænugarði. Arseniy Jatsenyuk, einn leiðtogi mótmælenda hefur biðlað til forseta landsins um að afturkalla lögreglusveitirnar og biðja um vopnahlé. „Ekki láta Úkraínu verða að blóðugu landi,“ sagði Jatsenyuk.
Viktor Pshonka, ríkissaksóknari í Kænugarði kennir mótmælendum um ofbeldið. „Í nafni pólitískrar sannfæringar hafa þeir hundsað öll samkomulög og stefnt þannig lífum fjölda Kænugarðs-búa í hættu. Í dag höfum við séð að það er aðeins ríkisstjórnin sem hefur áhuga á að leysa málið með friðsamlegum hætti. Mótmælendur verða að bera ábyrgð á þessu ofbeldi. Þeir boðuðu til friðsamlegra mótmæla sem enduðu með ósköpum,“ segir Pshonka.