John Bercow, forseti neðri deildar breska þingsins, hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir bréf sem hann sendi formönnum allra flokka þingsins í vikunni. Í bréfi sínu biður hann formennina að koma þeim skilaboðum til þingmanna að hætta ítrekuðum frammíköllum. Einnig bað hann þá að koma með hugmyndir að breyttu fyrirkomulagi á hinum sögufræga vikulega fyrirspurnartíma þingsins, „Prime minister's questions“.
Margir þingmenn eru ekki sáttir við þetta útspil forsetans en þeir telja að fyrirkomulag fyrirspurnartímans eigi sér sögulegar rætur og að fyrrverandi þingsforsetar hafi allir sýnt frammíköllum og beittum spurningum mikinn skilning.
Bercow telur að núverandi fyrirkomulag leiði til þess að konur sækist síður eftir því að taka sæti á þingi. „Konur eru almennt minna hrifnar af frammíköllum og öskrum.“ Robert Buckland, þingmaður Íhaldsflokksins, tekur ekki undir orð forsetans. „Það að fyrirkomulagið hreki konur úr þingstörfum - ég get ekki tekið undir það. Stundum þurfa þingmenn að fá smáútrás fyrir það sem þeir eru óánægðir með og stundum þarf að ríkja ró og friður.“
Fyrirspurnartíminn er alltaf á miðvikudögum á breska þinginu og stendur hann yfir í rúmlega hálftíma. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar fær að spyrja þriggja spurninga auk andmæla við svörum forsætisráðherrans. Þingsalurinn er oftast fullsetinn á þeim tíma, og rúmlega það, því þingsalur neðri deildar þingsins er ekki með nægilega mörg sæti til að allir þingmenn komist þar fyrir. Sumir þurfa því að standa. Forsætisráðherra og leiðtogi stjórnarandstöðunnar sitja sitthvorumegin við ræðupúltið í nægilegri fjarlægð til að sverð þeirra geti ekki snerst. Augljóslega bera þingmenn ekki sverð í dag en það er gott dæmi um hinar fjölmörgu hefðir sem ríkja á þinginu.
Forseti þingsins hefur umsjón með umræðunum. Samkvæmt hefðinni þarf sá þingmaður sem kjörinn verður þingforseti að segja sig úr þeim stjórnmálaflokki sem hann var kjörinn á þing fyrir. John Bercow var áður þingmaður Íhaldsflokksins en sagði sig úr flokknum við kjör sitt árið 2009. Hann hafði í nokkur ár gagnrýnt margt í stefnu flokksins og um tíma voru uppi getgátur um að hann myndi ganga til liðs við Verkamannaflokkinn en þess í stað var hann gerður að þingsforseta með atkvæðum þingmanna beggja flokka. Ef sitjandi þingforseti býður sig fram til áframhaldandi þingsetu er einnig óskrifuð regla að enginn bjóði sig fram gegn honum þótt oft hafi einstaka frambjóðendur brotið gegn þeirri reglu. Það gerðist þegar Bercow hlaut endurkjör í þingkosningunum árið 2010 og hlaut hann aðeins 47% af atkvæðum.
Spurningarnar í fyrirspurnartímanum eru oft afar gagnrýnar en einnig getur verið mjög stutt í glensið og mörg fleyg ummæli hafa fallið í slíkum fyrirspurnartímum, sem eru sýndir í beinni útsendingu á BBC.
Hér má sjá útdrátt úr fyrirspurnartímanum á breska þinginu í síðustu viku