Til varnar siðferði þjóðarinnar

Samkynhneigðir eiga nú á hættu að vera fangelsaðir fyrir lífstíð …
Samkynhneigðir eiga nú á hættu að vera fangelsaðir fyrir lífstíð vegna kynhneigðar sinnar. AFP

Stjórnvöld í Úganda vörðu í dag ákvörðun sína um nýja löggjöf gegn samkynhneigð og sögðust staðráðin í að standa vörð um siðferði þjóðarinnar, jafnvel þótt það þýddi að hún yrði af alþjóðlegri aðstoð.

Yfirlýsing stjórnvalda kemur á hæla þess að forsetinn, Yoweri Museveni, tilkynnti að hann myndi undirrita lögin, sem m.a. mæla fyrir um lífstíðarfangelsi fyrir samkynhneigð, þrátt fyrir viðvaranir frá Bandaríkjamönnum og öðrum bandamönnum Úganda.

Embættismenn tilkynntu einnig í dag að Museveni hefði í síðustu viku undirritað löggjöf gegn klámi og löggjöf um klæðaburð, sem bannar m.a. „ögrandi“ fatnað og fáklætt fólk í úgönsku sjónvarpi.

„Okkur stendur á sama um að missa fjárhagslegan stuðning vinaþjóða okkar ef við aðeins erum látin í friði,“ sagði Simon Lokodo, ráðherra siðferðis og ráðvendni. Hann sagði íbúa Úganda heldur vilja lifa í fátækt en í ósiðlegu þjóðfélagi. Lokodo kallaði viðvaranir erlendra ríkja óásættanlega fjárkúgun. „Ef forsetinn undirritar lögin gegn samkynhneigðum á morgun og heimurinn fyrir utan segist ekki munu koma til Úganda, leyfum honum þá að vera þar, okkur stendur á sama,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert