Flóttafólk frá Norður-Kóreu og mannréttindasamtök hafa fagnað nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um alvarleg mannréttindabrot í landinu en talið er ólíklegt að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykki aðgerðir gegn einræðisstjórninni í Pjongjang.
Höfundar skýrslunnar segja að draga eigi leiðtoga Norður-Kóreu og helstu embættismenn hans fyrir alþjóðlegan dómstól vegna glæpa gegn mannkyninu. Kínversk stjórnvöld, sem eru með neitunarvald í öryggisráðinu, höfnuðu niðurstöðum skýrslunnar og sögðu að gagnrýnin á N-Kóreustjórn væri „ósanngjörn“.
Þriggja manna rannsóknarnefnd á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna birti í fyrradag 374 síðna skýrslu þar sem fjallað er um alvarleg mannréttindabrot í Norður-Kóreu, m.a. aftökur og morð á meintum andófsmönnum, þrælkun pólitískra fanga og ofbeldi gegn föngum, m.a. pyntingar og nauðganir.
Nefndin hlýddi á vitnisburði 320 norðurkóreskra flóttamanna í Bretlandi, Japan, Suður-Kóreu og Bandaríkjunum. Nefndin yfirheyrði einnig sérfræðinga í málefnum Norður-Kóreu, m.a. sérfræðinga sem nota gervihnattamyndir til að rannsaka fanga- og þrælkunarbúðir í landinu.
Í skýrslunni kemur fram að talið er að um 80.000 til 120.000 manns séu núna í fangabúðum sem er lýst sem helvíti á jörðu. Talið er að hundruð þúsunda manna hafi dáið fyrir aldur fram í búðunum síðustu fimm áratugi, annaðhvort verið teknir af lífi eða dáið af völdum hungurs, þrælkunar og pyntinga.
Formaður rannsóknarnefndarinnar, Michael Kirby, sem var dómari í Ástralíu í 35 ár, sagði að mannréttindabrotin í Norður-Kóreu minntu hann á grimmdarverk þýskra nasista í síðari heimsstyrjöldinni og Rauðu kmeranna undir forystu Pol Pot í Kambódíu. Harðstjórnin í Norður-Kóreu ætti sér enga hliðstæðu í heiminum nú á dögum.
Kirby greip til þess ráðs að skrifa Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, bréf þar sem hann varaði við því að Kim og hundruð handbenda hans kynnu að verða saksótt þegar fram liðu stundir fyrir glæpina.
Kim Young-Soon, ein úr röðum flóttafólksins sem kom fyrir rannsóknarnefndina, sagði það mjög mikilvægan áfanga að nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna skyldi hafa lagt fram skýrslu um „hryllinginn sem fólk hefur þurft að ganga í gegnum“ í Norður-Kóreu. „Norður-Kóreustjórn viðurkennir aldrei að til séu fangabúðir fyrir pólitíska fanga og þessi skýrsla breytir ekki neinu á einni nóttu,“ hefur fréttaveitan AFP eftir henni. „Það þýðir samt ekki að við eigum að gefast upp. Við þurfum að safna vitnisburðum til að einhvern tíma verði hægt að nota þá sem óvéfengjanleg sönnunargögn til að refsa þeim sem standa fyrir grimmdarverkunum.“
Fréttaskýrendur segja það mjög ólíklegt að leiðtogarnir í Norður-Kóreu verði saksóttir vegna þess að talið er að Kínverjar beiti neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu gegn hvers konar tilraunum til að refsa þeim sem bera ábyrgð á mannréttindabrotunum. Bill Richardson, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna, telur þó að gagnrýnin sem kemur fram í skýrslunni geti haft áhrif á stjórnina í Norður-Kóreu og hreyft við „hófsömum öflum í Pjongjang sem átta sig á því að einhverjar breytingar eru nauðsynlegar“.
Annar sérfræðingur í málefnum Norður-Kóreu, Leoníd Petrov, segir að ekki sé til nein einföld lausn á vandamálinu. Hann telur ólíklegt að ástandið í mannréttindamálum batni í Norður-Kóreu nema deilan um kjarnavopnaáætlun landsins verði leyst og samkomulag náist um að binda formlega enda á Kóreustríðið sem lauk með vopnahléi en án friðarsamnings árið 1953.
Einn af fyrrverandi föngum, sem lýstu hryllingnum í fangabúðunum, sagði að eitt af verkefnum sínum hefði verið að „safna líkum þeirra sem dóu úr hungri, setja þau í stóran pott og brenna þau“, sagði Kirby. Fanginn var síðan látinn setja öskuna í poka til að hægt yrði að nota hana sem áburð á nálægum ökrum.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að vörður gekk í skrokk á konu þegar hún ól barn í einum fangabúðanna. Hún grátbað vörðinn um að fá að halda barninu en hann hélt áfram að berja hana. Hún var síðan neydd til að taka nýfætt barnið og halda höfði þess í vatnsfötu þar til það drukknaði.
Harðstjórarnir fangelsa ekki aðeins þá sem grunaðir eru um andóf, heldur einnig skyldmenni þeirra. Margir fanganna voru hnepptir í fangelsi fyrir að reyna að flýja til Kína, aðrir fyrir það eitt að horfa á sápuóperu í sjónvarpi eða fyrir að leita að mat til að seðja hungrið.
Eitt vitnanna sagði að matarskammtarnir hefðu verið svo litlir að fangar hefðu þurft að borða orma eða gras og veiða snáka eða rottur sér til matar. „Þegar einhver dó klæddum við hann úr fötunum og fórum í þau,“ sagði eitt vitnanna.
Annað vitni sagði að fangar hefðu eitt sinn grafið nokkur lík og síðar komið að gröf þeirra tómri. „Seinna komumst við að því að gamall maður, sem gætti staðarins, hafði látið hundana sína éta líkin,“ sagði einn fanganna fyrrverandi.