Norðmaðurinn Joshua French sem setið hefur í fangelsi í Kongó undanfarin ár var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morð á vini sínum og meðfanga, Norðmanninum Tjostolv Moland. Félagarnir sátu í fangelsi í landinu fyrir morð á leigubílstjóra í landinu fyrir fimm árum síðan. Moland fannst látinn í klefa sínum 18. ágúst s.l. og var French strax grunaður um að hafa orðið honum að bana.
Dómararnir sögðu í framsögu sinni í dag málsvörn Frenchs hafi verið gloppótt og að grunsamlegt hafi verið að hann hafi breytt vitnisburði sínum fyrir dómi. Moland var með mikið áfengi í blóðinu þegar hann fannst látinn og taldi dómurinn að hann hafi ekki verið fær um að taka eigið líf í því ástandi sem hann var í. Einnig taldi dómurinn að ýmis sár á líkama Molands bentu til þess að hann hafi ekki framið sjálfsmorð.
French hefur gefið það út að hann muni áfrýja dómnum. Norska utanríkisþjónusta hefur eftir fremsta megni reynt að aðstoða French í málinu en réttarhöldin hafa ekki gengið auðveldlega fyrir sig og var þeim oftar en einu sinni frestað m.a. vegna veðurs, en réttarhöldin áttu upprunalega að vera haldin utandyra.
Sjá umfjöllun Verdens Gang um málið
Sjá frétt mbl.is: Sagður hafa myrt klefafélaga sinn