Lík andstæðinga úkraínsku ríkisstjórnarinnar lágu innan um brak á Frelsistorginu í Kænugarði í morgun. Í það minnsta 25 mótmælendur og tveir lögreglumenn féllu í hörðum átökum næturinnar þar sem lögreglan skaut m.a. á mótmælendur. Samkomulag sem stjórnarandstaðan og ríkisstjórnin náðu á þriðjudag, sem átti að binda enda á átökin, hafði þveröfug áhrif. Ástandið er enn eldfimt og leiðtogar ríkja Evrópusambandsins halda neyðarfund í dag vegna málsins.
Mótmælendur höfðu undirbúið nóttina vel. Þeir reistu virki, bjuggu til bensínsprengjur og reyndu að svara sókn lögreglunnar. Lögreglan þurfti á tímabili að hörfa. Dökkur reykur steig til himins og eftir nóttina er torgið, sem hefur verið tákn appelsínugulu byltingarinnar, eins og eftir vígvöll.
Anddyri hótela við torgið gegndu í morgun hlutverki líkhúsa. Sjö lík lágu á marmaragólfi eins hótelsins.
Ljósmyndari AFP-fréttastofunnar segir skothylki liggja um allt á torginu.
Þrír leiðtogar stjórnarandstöðunnar segja að stuðningsmenn forsetans hafi efnt til óeirða á torginu í gær og nótt.
28 létust í átökunum í Kænugarði á þriðjudag.
Innanríkisráðherra Úkraínu segir að tveir lögreglumenn hafi fallið í bardögum við mótmælendur í nótt. Hann hvetur íbúa Kænugarðs til að halda sig innan dyra því um götur gangi „vopnað og ógnandi“ fólk.
Mótmæli hófust í nóvember er Viktor Janúkóvítsj forseti ákvað að slíta viðræðum við Evrópusambandið um frekara samstarf. Hann vildi heldur halla sér að Rússum.
Leiðtogar margra vestrænna ríkja hafa fordæmt þá hörku sem öryggissveitir hafa sýnt mótmælendum.