Byssukúlu var skotið inn um glugga hótels í Kænugarði í nótt. Leyniskyttur hafa sést á þökum húsa. Þær miða byssum sínum á mótmælendur. Þetta segir fréttaritari Sky-sjónvarpsstöðvarinnar sem fylgist með mótmælunum í borginni. Þúsundir voru á Frelsistorginu í nótt. Eldar voru kveiktir og lögreglan réð ekki við ástandið. Hún er sögð hafa skotið á mótmælendur. „Lögreglan var þessu algjörlega óviðbúin, þeir hafa sótt að mótmælendum af hörku og í raun bara verið að skjóta á þá,“ segir David Bowden, fréttaritari Sky.
Margir særðust í átökunum í nótt og átti hjúkrunarfólk, sem var í viðbragðsstöðu vegna óeirðanna, fullt í fangi með að sinna þeim slösuðu. Mótmælendur sóttu hart að lögreglumönnum, hentu bensínsprengjum og steinum í átt að þeim. Lögreglan skaut m.a. gúmmíkúlum á fólkið.
Einn mótmælandi lést í átökum næturinnar. Í vikunni létust samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar 28 mótmælendur.