Úkraínska þingið samþykkti nú á tólfta tímanum að sleppa Júlíu Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra, úr fangelsi. Líklegt er talið að hún geti losnað úr haldi strax í dag.
Mótmælendur hafa á undanförnum dögum krafist þess að Tímósjenkó, sem er einn helsti stjórnarandstöðuleiðtoginn, verði sleppt úr haldi.
Tímósjenkó var forsætisráðherra Úkraínu á árunum 2007 til 2010. Eftir að Viktor Janúkóvítsj var kjörinn forseti var hún ákærð fyrir að hafa misbeitt valdi sínu í tengslum við gassamning sem hún gerði við rússnesk stjórnvöld árið 2009. Hún var dæmd í sjö ára fangelsi árið 2011.
Fregnir herma að Janúkovítsj hafi flúið frá Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, til Kharkiv, sem er borg nálægt landamærum Úkraínu og Rússlands. Þar á hann fjölmarga bandamenn.