Efast um lögmæti stjórnvalda

Dimitrí Medvedev, forsætisráðherra Rússlands.
Dimitrí Medvedev, forsætisráðherra Rússlands. NATALIA KOLESNIKOVA

Dimitrí Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, efast um lögmæti nýrra stjórnvalda í Úkraínu. Hann segir að Rússar geti ekki sest að samningsborðinu með leiðtogum sem komist til valda með vopnaðri byltingu.

Hann tjáði sig í dag í fyrsta sinn opinberlega um atburði helgarinnar í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu. Forsætisráðherrann sagði að ríkisstjórnir á Vesturlöndum, sem hafi samþykkt valdaskiptin í landinu, væru á algjörum villigötum.

Hann bætti því við að Rússar væru reiðubúnir að setjast að samningsborðinu ef lögmæt ríkisstjórn kæmist til valda. Hann vildi ekki tjá sig um hvort Rússar myndu kaupa fimmtán milljarða Bandaríkjadala skuldabréf af stjórnvöldum í Úkraínu, eins og Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hafði gefið í skyn í desember síðastliðnum.

„Við getum rætt hvaða mál sem er við Úkraínumenn, en við verðum að vita við hvern við eigum að ræða,“ sagði hann.

Fyrr í dag hótaði efnahagsráðherra Rússlands að hækka tolla á úkraínskar vörur ef Úkraína myndi skrifa undir samning við Evrópusambandið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert