Skelfingarástand ríkir í löndum á borð við Úkraínu, Venesúela, Taíland, Bosníu og Sýrland eins og fjallað hefur verið um í heimsfréttunum á hverjum einasta degi. Byltingar, órói og óeirðir eru víða í heiminum um þessar mundir.
Við fyrstu sýn virðist sem svo að það sé tilviljunum háð hvar í heiminum átök og óeirðir blossa upp. En það er eitt sem ríkin eiga sameiginlegt, segir Brian Merchant, pistlahöfundur á vefsíðunni Motherboard. Matvælaverð er í hæstu hæðum í öllum ríkjunum.
Fyrir rúmu ári vöruðu sérfræðingar hjá New England Complex System-stofnuninni (NECSI) við því að ef matvælaverð myndi halda áfram að hækka í heiminum myndu líkurnar á að óeirðir brytust út að sama skapi aukast. Það reyndist rétt.
Sá sem fór fyrir sérfræðingahópnum, Yaneer Bar-Yam, teiknaði graf sem sýndi þróun hinnar svonefndu matvælavísitölu í heiminum. Hann komst að því að alltaf þegar vísitalan fór yfir 210 stig brutust út óeirðir einhvers staðar í heiminum.
Það gerðist til dæmis árið 2008, eftir hrun fjármálakerfisins, og aftur árið 2011, þegar túnískur mótmælandi kveikti í sjálfum sér vegna þess að hann gat ekki brauðfætt fjölskyldu sína. Í raun má segja að atburðurinn hafi leyst úr læðingi öldu mótmæla í arabaheiminum.
Bar-Yam smíðaði út frá upplýsingum um matvælavísitöluna líkan. Samkvæmt því áttu átök að brjótast út í arabaríkjunum og það reyndist rétt. Nokkrum vikum síðar hófst arabíska vorið svokallaða. Fjórum dögum áður en Mohammed Bouazizi, grænmetis- og ávaxtasalinn í Túnis, kveikti í sjálfum sér hafði NECSI skilað af sér skýrslu þar sem varað var við afleiðingum hás matvælaverðs á pólitískan stöðugleika í heiminum, sér í lagi í arabaríkjunum
Líkanið hafði aftur rétt fyrir sér í fyrra. Matvælaverð á heimsvísu hefur sjaldan verið jafnhátt og langt er síðan svo mikill óstöðugleiki hefur ríkt í heiminum.
„Það hefur verið ólga í fjölmörgum löndum á undanförnum átján mánuðum sem er í fullu samræmi við spár okkar,“ segir Bar-Yam. Matvælaverðið virðist hafa sitt að segja. Vendipunktinum er náð, að hans sögn, þegar vísitalan fer í 210 stig og „þar höfum við verið seinustu átján mánuði,“ útskýrir hann
Auðvitað er fjölmargt annað sem kemur til en matvælaverðið virðist skipta máli. Ekkert lát er til dæmis á mótmælunum í Venesúela en þar hefur matvælaverð ekki verið jafnhátt í átján ár.
Suður-Afríka, Haítí, Argentína, Egyptaland, Túnis, Brasilía, Tyrkland, Kolumbía, Líbýa, Svíþjóð, Indland, Kína, Búlgaría, Síle, Sýrland, Taíland, Bangladesh, Barein, Úkraína, Venesúela og Bosnía eru dæmi um ríki þar sem óeirðir hafa brotist út og matvælaverð hefur hækkað, að sögn Bar-Yam.
Matvælaverð hefur farið hækkandi í Taílandi. Árið 2012 vöruðu Sameinuðu þjóðirnar við því að hækkandi matvælaverð gæti leitt til megnrar óánægju meðal landsmanna sem gæti að endingu leitt til átaka. Svo varð raunin, enda brutust út miklar óeirðir í landinu í fyrra.
Í Bosníu hefur almenningur farið út á götur og mótmælt hækkandi atvinnuleysi, háu matvælaverði og andvaraleysi stjórnvalda. Fréttaskýrendur segja að um sé að ræða verstu átökin í landinu síðan stríði lauk þar árið 1995.
Í stuttu máli sagt er matvælaverð hátt og óánægja almennings að magnast. En horfurnar eru hins vegar bjartar.
Bar-Yam segir að útlit sé fyrir að kornverð fari lækkandi á næstu mánuðum sem gæti að lokum leitt til lægra verðs á matvælum. „Það getur vonandi hjálpað til við að draga úr ólgunni,“ segir hann.