Stjórnvöld í Noregi hafa tilkynnt að þau ætli ekki að greiða út 50 milljónir norskra króna (um milljarð íslenskra króna) í þróunaraðstoð til Úganda í mótmælaskyni við hert viðurlög þar í landi við samkynhneigð á þeim forsendum að um brot gegn grundvallarmannréttindum sé að ræða.
Fram kemur í yfirlýsingu norskra stjórnvalda að þau harmi mjög lagasetninguna. Hún væri til þess fallin að gera stöðu samkynhneigðra í Úganda enn erfiðari og gera mannréttindastarf samtaka og einstaklinga refsivert. Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.no að dönsk stjórnvöld hafi í hyggju að beina þróunaraðstoð sinni til Úganda til annarra verkefna en þeirra sem séu á vegum þarlendra stjórnvalda.