„Nornaveiðar eiga eftir að kosta mannslíf“

Forsíða götublaðsins Red Pepper í dag.
Forsíða götublaðsins Red Pepper í dag.

Götublaðið Red Pepper í Úganda fer hamförum þessa dagana í óhróðri sínum gegn samkynhneigðum eftir að forseti landsins staðfesti á mánudag lög sem herða viðurlög við samkynhneigð. Á forsíðu blaðsins í dag eru birtar fleiri myndir af samkynhneigðum og dylgjað um að samkynhneigðir ætli í blóðugt stríð vegna laganna.

„Nýjar myndir af samkynhneigðum inni í blaðinu“ stendur m.a. stórum stöfum á forsíðu blaðsins í dag. Þá er fjallað um að samkynhneigðir hafi með leynd gengið í hjónabönd.

„Þessar nornaveiðar eiga eftir að kosta fleiri mannslíf,“ segir Kasha J. Nabagesera, stofnandi samtaka hinsegin kvenna í Úganda, á facebooksíðu sinni í morgun. Hún hefur ástæðu til að óttast - því er annað dagblað birti á forsíðu sinni nöfn og myndir af samkynhneigðum árið 2011 kostaði það einn helsta baráttumann hinsegin fólks í Úganda lífið. David Kato var barinn til bana á heimili sínu í kjölfar fréttarinnar. Fyrirsögnin á forsíðunni var: „Hengjum þá“.

Kasha segir að blaðið svífist einskis til að ná í myndir af samkynhneigðum til að birta. Þær séu m.a. teknar af netinu úr viðtölum sem þeir hafa veitt.

Sjálf hefur Kasha þurft að þola ofsóknir í gegnum tíðina. Hún hefur verið lamin og fengið líflátshótanir. En nú er ljóst að nornaveiðarnar eru hafnar fyrir alvöru.

Forsíða Red Pepper í gær.
Forsíða Red Pepper í gær.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert