Biður Rússa um vernd

Viktor Janúkóvítsj, sem var steypt af stóli forseta Úkraínu um helgina, lítur enn á sig sem forseta landsins en hann hefur beðið Rússa um að vernda sig. Fréttir rússneskra fjölmiðla herma að rússnesk stjórnvöld hafi orðið við beiðni forsetans fyrrverandi.

Stuðningsmenn Rússlands hafa náð yfirráðum í þinghúsinu í Simferopol,

Bráðabirgðastjórnin í Úkraínu varaði rússnesk stjórnvöld við því að hafa afskipti af innanríkismálum í dag en tugir vopnaðra stuðningsmanna Rússlands ruddust inn í þinghúsið í Simeropol, höfuðborg sjálfstjórnarhéraðsins Krímar, snemma í morgun. 

Ríkissaksóknari Úkraínu hóf í dag hryðjuverkarannsókn á yfirtökunni á þinghúsinu í Simferopol.

Flestir íbúar Krímar eru af rússneskum ættum og margir þeirra eru andvígir bráðabirgðastjórninni sem mynduð var í Kænugarði eftir að Viktor Janúkóvítsj var steypt af stóli forseta um helgina. Úkraínski minnihlutinn og tatarar, sem eru múslimar og sættu ofsóknum í valdatíð Stalíns í Sovétríkjunum, óttast að rússneski meirihlutinn krefjist aðskilnaðar skagans frá Úkraínu og að hann verði aftur hluti af Rússlandi.

Forseti þings Krímar sagði þó í gær að það myndi ekki hefja umræðu um aðskilnað.

Skaginn var hluti af Rússlandi frá átjándu öld en var færður undir stjórn Úkraínu árið 1954 þegar Níkíta Khrústsjov var leiðtogi Sovétríkjanna. Eftir að Úkraína fékk sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991 hélt landið yfirráðunum yfir Krímskaga en gerður var samningur við Rússa um að þeir héldu herstöðinni í hafnarborginni Sevastopol til ársins 2042.

Þrír fyrrverandi forsetar Úkraínu – Leoníd Kravtsjúk, Leoníd Kútsjma og Viktor Jústsjenkó – gáfu í gær út yfirlýsingu þar sem þeir gagnrýna rússnesk stjórnvöld fyrir íhlutun í stjórnmál Krímskaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert