Fær að giftast látnum unnusta

Forseti Frakklands, Francois Hollande, hefur veitt þarlendri konu heimild til þess að giftast fyrrverandi unnusta sínum, sem lést árið 2012, einungis einum mánuði áður en parið ætlaði að ganga í það heilaga. Hægt var að heimila giftinguna vegna lítt þekktrar franskrar lagasetningar.

Giftingin fer fram innan nokkurra vikna en hún verður borgaraleg samkvæmt fréttavefnum Thelocal.fr. Tekið hefur langan tíma fyrir konuna að fá umrædda heimild en upplýst var í vikunni að hún hefði verið veitt. Parið var saman í sex og hálft ár þegar maðurinn lést vegna hjartaáfalls. Konan var staðráðin í að láta engu að síður verða af brúðkaupinu og nýtti til þess lítt þekkt frönsk lög sem heimila að gengið sé að eiga látna manneskju við sérstakar aðstæður.

Við tók að sannfæra forseta Frakklands um að tilfelli hennar væri sérstakt og að hún hefði elskað unnusta sinn fyrrverandi út yfir gröf og dauða. Í því skyni ritaði hún fjögur bréf til Hollandes og beið síðan eftir svari í 20 mánuði. Haft er eftir henni í fréttinni að hún hafi skrifað bréfin frá hjartanu. Brúðkaupið fer fram í heimabæ konunnar, St. Omer í norðurhluta landsins, þar sem hún mun standa fyrir framan bæjarstjórann ásamt mynd af unnustanum.

„Ég verð eiginkona hans, ég get borið nafn hans,“ er haft eftir henni. Umrædd löggjöf er frá árinu 1959 þegar 420 manns létu lífið í kjölfar þess að stífla brast í suðurhluta Frakklands. Einn af þeim var unnusti barnshafandi konu. Þáverandi forseti landsins, Charles de Gaulle, beitti sér fyrir setningu laganna. Hins vegar er krafist sönnunar fyrir því að brúðkaup hafi verið fyrirhugað.

Þá segir í fréttinni að slík brúðkaup séu frekar sjaldgæf í Frakklandi þrátt fyrir að löggjöfin hafi verið fyrir hendi í meira en hálfa öld en um 50 slík eiga sér stað árlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert