Kærður fyrir að segja „Heil Hitler“

Jacek Protasiewicz, Evrópuþingmaður.
Jacek Protasiewicz, Evrópuþingmaður. AFP

Pólsk­ur Evr­ópuþingmaður, Jacek Protasiewicz, verður kærður fyr­ir að hafa kallað tvo toll­verði á alþjóðaflug­vell­in­um í Frankfurt í Þýskalandi nas­ista síðastliðið þriðju­dags­kvöld og öskrað „Heil Hitler“ að þeim. Þingmaður­inn, sem einnig er einn vara­for­seta Evr­ópuþings­ins í umboði þing­flokks­ins EPP, gaf þá skýr­ingu á hegðun sinni að hann hefði aðeins drukkið tvær litl­ar vín­flösk­ur.

Fram kem­ur á frétta­vefn­um Thelocal.de að lög­regla hafi staðfest að Protasiewicz yrði kærður. Auk þess að öskra nas­ista­kveðjuna að toll­vörðunum sagði hann öðrum þeirra að hann ætti að fara til Auschwitz þar sem þýsk­ir nas­ist­ar starf­ræktu ein­ar af út­rým­ing­ar­búðum sín­um í síðari heims­styrj­öld­inni. Sjón­ar­vott­ur sagði þing­mann­inn hafa verið mjög drukk­inn og hafi meðal ann­ars tekið far­ang­urs­vagn af öðrum farþega áður en hann hellti sér yfir toll­verðina. Lög­regla hand­tók hann síðan og leiddi á brott í hand­járn­um. Hon­um var síðan sleppt að lok­inni yf­ir­heyrslu.

Protasiewicz hef­ur hafnað ásök­un­un­um. Hann sagði í sam­tali við pólska fjöl­miðla að toll­verðirn­ir hefðu verið ógn­andi í hans garð. Ann­ar toll­vörður­inn hafi beðið um að skoða tösk­urn­ar hans en hann hafi svarað að það gengi gegn diplóma­tísku frelsi hans. Þegar hann hafi skilað vega­bréf­inu hafi hann sagt „Raus“ eða „Farðu“. „Ég sagði hon­um að hann ætti að heim­sækja Auschwitz vegna þess að þar hefðu Þjóðverj­ar notað orðið „Raus“.“

For­sæt­is­ráðherra Pól­lands, Don­ald Tusk, gagn­rýndi Protasiewicz fyr­ir fram­göngu hans í gær en Protasiewicz til­heyr­ir stjórn­mála­flokki hans. „Ein­stak­ling­ur sem gegn­ir svo mik­il­vægri op­in­berri og alþjóðlegri stöðu verður að geta stjórnað til­finn­ing­um sín­um og taug­um,“ sagði ráðherr­ann.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka