Undir trumbuslætti og sambadansi undirbúa íbúar Ríó sig nú fyrir nautnalífið sem tilheyrir kjötkveðjuhátíðinni sem stendur næstu fimm daga.
Undirbúningur fyrir hátíðina miklu hefur staðið vikum saman en í dag er stóri dagurinn runninn upp: Veislan er að hefjast.
Götuveislan sem tilheyrir kjötkveðjuhátíðinni er einstök og sú stærsta sem fram fer í heiminum. Hún hefst á því að kjötkveðjukóngurinn Momo fær afhenta lyklana að borginni úr hendi borgarstjórans. Þar með hefur hann völdin í fimm daga.
Í dag er það hinn 27 ára gamli Wilson Dias da Costa Neto sem fer með hlutverk Momos.
Talið er að hátíðin verði enn íburðarmeiri í ár en áður þar sem Brasilía er að hita upp fyrir heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem fram fer í sumar og hefst 12. júní.
Margir sambaskólar taka þátt í ár með allri þeirri dýrð sem því fylgir. Þeir munu keppa sín á milli á sunnudag og mánudag og um 70 þúsund áhorfendur horfa á skrúðgönguna úr stúkusætum á stað sem kallaður er Sambadrome.
Mörg þúsund dansarar keppa fyrir hvern skóla. Skrúðgangan er um 700 metra löng.
En það eru ekki bara sambaskólarnir sem fá athyglina. Óteljandi smærri hópar listamanna láta til sín taka fyrir utan alla þá áhorfendur sem taka þátt í gleðinni.
Í tengslum við kjötkveðjuhátíðina koma um 918 þúsund ferðamenn til Ríó.
Lögreglan er með mikinn viðbúnað og öryggisgæslan er stíf. Á undanförnum mánuðum hafa mótmælendur fyllt göturnar sem sambadansararnir munu nú fylla. Meðal annars hefur gríðarlegum kostnaði vegna heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu verið mótmælt. Á sama tíma hefur verðbólga aukist í landinu.
Ekki er búist við að mótmælendur þyrpist út á götur næstu daga. Mikil virðing er borin fyrir kjötkveðjuhátíðinni og flestir á því að íbúar Ríó muni grípa tækifærið, leggja niður mótmælaspjöldin og taka létt dansspor á torgum.