Vildu myrða Rudolph Giuliani

Rudolph Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York.
Rudolph Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York. AFP

Ítalska mafían hafði uppi áform um að láta myrða Rudolph Giuliani, fyrrverandi borgarstjóra New York-borgar og þáverandi saksóknara í borginni, á níunda áratug síðustu aldar. Áformin voru að undirlagi mafíuforingjans Totos Riina sem nú situr í fangelsi. Frá þessu er grein í ítalska balðinu Palermo Today.

Fram kemur í fréttinni að upplýst hafi verið um áformin af uppljóstrara að nafni Rosario Naimo. Um sé að ræða upplýsingar sem voru hluti af sönnunargögnum í sakamáli gegn mafíunni. Naimo fullyrðir að Riina hafi sent einn af mönnum sínum til Bandaríkjanna til þess að fyrirskipa morðið. Sá hafi haft samband við Gambino-mafíuna í New York og beðið um leyfi til þess að fremja morðið á þeirra yfirráðasvæði.

Ennfremur segir að áhugi Riina á því að ryðja Giuliani úr vegi hafi snúist um tengsl þess síðarnefnda við ítalska dómarann Giovanni Falcone sem hafi verið í forystu fyrir aðgerðir gegn sikileysku mafíunni. Ekkert varð hins vegar úr áformunum en barátta Giulianis gegn mafíunni í Bandaríkjunum aflaði honum mikilla vinsælda. Hins vegar var Falcone skotinn til bana árið 1992.

Þá segir í fréttinni að Riina hafi horfið frá áformunum þar sem hann hafi gert sér grein fyrir því að bandarísk lögregluyfirvöld hefðu nægan slagkraft til þess að gera út af við sikileysku mafíuna ef af morðinu yrði. Þrátt fyrir að Riina hafi verið í fangelsi í tvo áratugi er hann enn talinn hættulegur. Fyrir aðeins fáeinum vikum var símtal hlerað þar sem hann fyrirskipaði að saksóknarinn Nino Di Matteo yrði myrtur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka