Sergiy Aksyonov, nýkjörinn forsætisráðherra Krímar, syðsta héraðs Úkraínu, óskaði í morgun eftir aðstoð frá Vladimír Pútín, forseta Rússlands, við að koma á friði á Krímskaga í deilum við ný stjórnvöld í Kænugarði, höfuðborg landsins.
Fram kemur í frétt AFP að Aksyonov hefði ekki tekið fram í hverju aðstoðin ætti að felast. Hann tók hins vegar fram að allar öryggissveitir í héraðinu, sem er sjálfstjórnarsvæði innan Úkraínu, væru honum hliðhollar.
Hersveitir tóku í gær yfir opinberar byggingar í Simferopol, stærstu borg héraðsins, í kjölfar þess að ný stjórnvöld tóku við völdum í Kænugarði.