Vill tryggja öryggi íbúa á Krímskaga

Viktor Janúkovítsj, fyrrverandi forseti Úkraínu, á fréttamannafundi í gær.
Viktor Janúkovítsj, fyrrverandi forseti Úkraínu, á fréttamannafundi í gær. ANDREY KRONBERG

Sergiy Aksyonov, sem var nýlega gerður forsætisráðherra Krímhéraðs af héraðsþinginu, hefur kallað eftir aðstoð rússneskra stjórnvalda við að koma á ró og spekt á Krímskaga. Hann vill að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, aðstoði hann við að tryggja öryggi íbúa á skaganum.

Í morgun sagðist forsætisráðherrann reiðubúinn að grípa til aðgerða, meðal annars vegna skipunar nýs lögreglustjóra í Krímhéraðinu, sem hann segir að sé ólögleg skipun. Allar öryggisveitir í héraðinu eru á valdi Aksyonovs.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, óttast það að mikil afskipti rússneskra stjórnvalda ógni stöðugleika á svæðinu. Hann flutti ávarp í Hvíta húsinu í gærkvöldi þar sem hann varaði Pútín við hernaðaríhlutun í Úkraínu.

Skoraði á Pútín

Oleksandr Turchynov, sem er settur forseti Úkraínu til bráðabirgða, hefur sakað Rússa um að senda fjölda hermanna á Krímskaga til þess eins að ögra Úkraínumönnum og hvetja til óeirða. Hann skoraði í gær á Pútín að kalla herlið sitt frá landinu.

Talsmaður forsetans, sem er staddur á Krímskaga, segir að þrettán rússneskar flugvélar hafi lent með nokkur hundruð hermenn í gærkvöld á herflugvelli í nánd við borgina Simferopol.

Fram kemur í frétt AFP að ekki sé ljóst hvort rússneski herinn megi nota flugvöllinn og senda þangað herlið.

Óttast er að Úkraínumenn séu að missa völdin á Krímskaganum. Í kjölfar þess að rússnesku hermennirnir lentu í Simferopol í gærkvöldi reyndu bæði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og David Cameron, forsætisráðherra Breta, að ná tali af Pútín símleiðis, að því er segir í frétt Wall Street Journal.

Þá hefur Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, lýst yfir stuðningi við ný stjórnvöld í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu. Hann sagðist styðja nýja ríkisstjórn til að koma á stöðugleika, bæði efnahagslegum og pólitískum, í landinu.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Úkraínu, hefur jafnframt áður sagt að Rússar myndu virða lofthelgi Úkraínumanna.

Segist vera réttkjörinn forseti

Viktor Janúkovítsj, fyrrverandi forseti Úkraínu, lét sjá sig í fyrsta sinn á opinberum vettvangi í gær eftir að honum var vísað úr forsetaembættinu. Hann hélt fréttamannafund í borginni Rostov-on-Don þar sem hann sagðist vera réttkjörinn forseti landsins. „Fasistar“ hefðu rænt völdum og bolað honum burt. Hann ætlar ekki að bjóða sig fram í forsetakosningunum sem haldnar verði í lok maímánaðar næstkomandi.

Hann sagðist hafa flúið frá Kænugarði til Rússlands vegna þess að hann óttaðist um öryggi sitt. Hann mun þó snúa aftur heim til Úkraínu þegar hann telur að öryggi sitt sé tryggt þar.

Stjórnvöld í Úkráinu hafa óskað eftir því að alþjóðleg handtökuskipun verði gefin út á hendur Janúkovítsj og að hann verði framseldur til landsins.

Google/Elín Esther
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert