Rússland gæti misst sæti sitt í G8

John Kerry.
John Kerry. AFP

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varaði stjórnvöld í Rússlandi við því í dag að hernaðaríhlutun í Úkraínu gæti haft í för með sér að Rússland missti sæti sitt í G8, þar sem eiga sæti leiðtogar átta helstu iðnríkja heims. 

Næsti leiðtogafundur G8-ríkjanna á einmitt að fara fram í Sotsjí í Rússlandi síðar á þessu ári. Kerry sagði í ræðu sinni að Pútín myndi ekki fá að halda leiðtogafundinn og hann yrði líklega ekki í G8-hópnum héldi hann áfram hernaði í Úkraínu. „Hann hins vegar getur séð fram á að eignir rússneskra fyrirtækja verði frystar, að bandarísk fyrirtæki geri ekki viðskipti við Rússland þannig að það eru ýmsar afleiðingar sem hann þarf að taka með í reikninginn.“

Hann sagði að áframhaldandi hernaður í Úkraínu yrði Rússlandi dýrkeyptur. Rússland myndi einangrast. 

Bandaríkin, Bretland og Frakkland hafa öll lýst því yfir að þau muni ekki taka þátt í undirbúningi leiðtogafundarins sem fram á að fara í Sotsjí í júní. „Ef Rússland ætlar að vera G8-land þarf það að hegða sér eins og G8-land,“ sagði Kerry.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert