„Við erum á hæsta viðbúnaðarstigi. Þetta er ekki hótun heldur stríðsyfirlýsing gagnvart þjóð minni,“ sagði Arseniy Yatsenyuk, forsætisráðherra Úkraínu, á blaðamannafundi í morgun. Hann sagði styttast í hörmungarástand og bað enn alþjóðasamfélagið um aðstoð.
Oksana Grytsenko, blaðamaður enska dagblaðsins Guardian, greinir frá því að rússneskir hermenn hafi verið að reyna að telja úkraínska hermenn og lögreglumenn í Krím á að láta vopn sín af hendi og gefast upp. Þá eru nokkrar herstöðvar umkringdar rússneskum hermönnum.
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), sagði eftir neyðarfund í hádeginu að bandalagið hvetti Rússa til að hörfa með hermenn sína út úr Úkraínu. Hann sagði aðgerðir Rússa ógna friði og stöðugleika í Evrópu.
Að neðan má sjá beina útsendingu frá mótmælum á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði.