47% Dana vilja frekar ganga í norrænt sambandsríki en að vera aðilar að Evrópusambandinu (ESB), ef marka má nýlega könnun í landinu. 28% aðspurðra sögðust vilja vera áfram í ESB.
Gallup gerði könnunina fyrir hugveituna Nyagenda en niðurstöður hennar voru kynntar í dagblaðinu Berglinske Tidende síðastliðinn fimmtudag.
Lave Broch, sem starfar hjá Nyagenda og er frambjóðandi Þjóðarhreyfingarinnar gegn Evrópusambandinu, segir nauðsynlegt að ganga til nánara samstarfs við Norðurlöndin. Hann telur ekki líklegt að norrænt ríkjasamband myndi einangra ríkin.
„Það væri gott ef Norðurlöndin gætu gert viðskiptasamninga eða samstarfssamninga við ESB og að sambandið þarna á milli yrði svipað og á milli Kanada og Bandaríkjanna,“ er meðal annars haft eftir honum. Þjóðirnar séu nánir vinir en ekki saman í ríkjasambandi.
Þá segir Jens Rohde, þingmaður Venstre á Evrópuþinginu, að ekki eigi að velja á milli norræns samstarfs annars vegar og aðildar að Evrópusambandinu hins vegar. Hvort tveggja geti þrifist vel hlið við hlið.