Bandaríkin hafa í hyggju að auka hernaðarsamstarf sitt við Pólland og Eystrasaltsríkin með það fyrir augum að sýna bandamönnum sínum stuðning í kjölfar hernaðaraðgerða Rússa í Úkraínu. Þetta tilkynnti Chuck Hagel, varnamálaráðherra Bandaríkjanna, í dag samkvæmt frétt AFP.
Haft er eftir Hagel í fréttinni að tekin hefði verið ákvörðun í varnarmálaráðuneytinu í morgun að grípa til aðgerða til þess að styðja bandamenn Bandaríkjanna, þar með talið að auka samstarf Bandaríkjamanna við Pólverja varðandi þjálfun herflugmanna og aukna aðkomu Bandaríkjanna að loftrýmiseftirliti Atlantshafsbandalagsins (NATO) yfir Eystrasaltsríkjunum, Lettlandi, Litháen og Eistlandi.