Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur líkt aðgerðum Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands, við hernaðaríhlutun Adolfs Hitlers á fjórða áratugi síðustu aldar.
Á einkafundi í suðurhluta Kaliforníu í dag sagði hún að hernaðarbrölt vopnaðra rússneskra hersveita í Úkraínu til að verja rússneska borgara og rússneskumælandi íbúa í Úkraínu minnti hana á hernaðarárásir Hitlers til að verja Þjóðverja sem voru búsettir fyrir utan Þýskaland á sínum tíma.
Fréttavefurinn The Long Beach Press Telegram greindi frá málinu. Samkvæmt fréttinni átti Clinton einnig að hafa sagt á fundinum að Pútín hefði veitt þeim Úkraínumönnum, sem eru hallir undir Rússa, rússneskt vegabréf.
Líklegt er talið að Clinton bjóði sig fram í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 en hún nýtur víðtæks stuðnings innan Demókrataflokksins.