Sergei Shoigu, rússneski varnarmálaráðherrann, segir að myndir sem náðust af bifreiðum hermanna á Krímskaga með rússneskum númeraplötum sem og myndskeið af vopnuðum hermanni sem segist vera frá Rússlandi séu þvættingur. Aðeins væri verið að ögra Rússum með því að ljúga svona upp á þá.
Rússar segja að þeir hafi engin völd yfir herjum sem hafa tekið völdin á Krímskaga. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefur sagt að herirnir styðji rússnesk stjórnvöld en taki ekki við skipunum þeirra.
Úkraínska vefsíðan UkrStream.tv birti í gær myndskeið á Youtube af vopnuðum hermanni sem talaði rússnesku tæpitungulaust. „Við erum rússneskir borgarar,“ sagði hann.
Varnarmálaráðherrann þvertekur hins vegar fyrir það að hermennirnir í Krím séu á þeirra vegum. „Að sjálfsögðu er þetta ögrun,“ sagði hann við ITAR-TASS fréttaveituna. Hann bætti við því að staðhæfingar um að hermennirnir tækju við skipunum Rússa væru þvættingur.
Í gær sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, að Rússar „væru ekki að blekkja neinn“ hvað varðar hlutverk þeirra í ástandinu sem nú er komið upp í Úkraínu.
„Ef þetta eru herir sem íbúarnir á Krímskaga hafa sett saman, þá höfum við ekkert vald yfir þeim,“ sagði Lavrov hins vegar á blaðamannafundi í Madrid í morgun.
„Þeir hafa ekki fengið skipanir frá okkur,“ bætti hann við. Hann sagði að rússnesk stjórnvöld myndu ekki heimila blóðbað í Úkraínu.