Frysta eignir Úkraínumanna

Evrópusambandið hefur fryst eignir 18 Úkraínumanna sem eru sakaðir um fjárdrátt, þeirra á meðal er Viktor Janúkóvitsj, fráfarandi forseti Úkraínu. Um er að ræða eignir þeirra í aðildarríkjum ESB, 28 talsins.

Ákvörðun um að frysta eignir þeirra var tekin í gær og segir í tilkynningu frá ESB að hún nái til fólks sem hefur gerst sekt um að hafa dregið að sér fé úr ríkissjóði Úkraínu.

Leiðtogar ESB munu hittast á neyðarfundi í Brussel klukkan 10: 30 til þess að ræða málefni Úkraínu, einkum og sér í lagi deilurnar á Krímskaga.

Í kvöld mun síðan öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hittast á fundi í New York (klukkan 19:30 að íslenskum tíma) og er fundurinn sá fjórði síðan á föstudag vegna ástandsins í Úkraínu. 

Auk Janúkóvitsj er sonur hans á listanum sem og sextán háttsettir fyrrverandi embættismenn, svo sem ráðherrar og herforingjar. Auk ESB ríkjanna hefur Sviss einnig látið frysta eignir forsetans fyrrverandi sem og sonar hans og átján annarra fyrrverandi ráðherra og embættismanna. Hið sama á við um Liechtenstein.

Utanríkisráðherrar Rússlands, Sergej Lavrov, og Bandaríkjanna, John Kerry, hittust í París í gær. Fréttaveitan AFP hafði eftir vestrænum diplómata að þeir hafi spjallað í nokkrar mínútur um ástandið á Krímskaga. Fast var lagt að Lavrov að hitta utanríkisráðherra Úkraínu. Ekkert varð af þeim fundi þar sem Lavrov fór án þess að hitta hann.

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, tilkynnti í gær að fyrirhugað væri að láta Úkraínu í té 11 milljarða evra til aðstoðar á næstu árum. „Pakkinn er ætlaður sem aðstoð við úkraínsk stjórnvöld,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Barroso. Hann segist ætla að ræða þetta frekar í Brussel á morgun við Arsení Jatsenjúk, forsætisráðherra Úkraínu. Ennfremur sagði Barroso að brýnt væri að finna friðsamlega lausn á málum á Krímskaga sem fælist í því að Rússar myndu hverfa á braut með herinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert