Sagði upp í beinni vegna ritskoðunar

Liz Wahl
Liz Wahl Skjáskot af RT

Fréttamaður sjónvarpsstöðvarinnar Russia Today, sem rússnesk stjórnvöld fjármagna og rekin er í Bandaríkjunum, Liz Wahl, sagði upp í beinni útsendingu í gærkvöldi.

Wahl fór í beinni útsendingu yfir stöðu sína og fjölskyldu sem flúðu til Bandaríkjanna á tímum Sovétríkjanna. „Ég get ekki verið hluti af fjölmiðli sem hvítþvær gjörðir Pútíns,“ sagði hún meðal annars í beinni útsendingu.

Wahl segist vera stolt af því að vera bandarísk og að hún trúi á það að flytja áhorfendum sannleikann. Þess vegna hafi hún ákveðið að segja upp eftir að útsendingunni lyki.

Að sögn Wahl kemur hún úr fjölskyldu sem flúði til Bandaríkjanna undan hersveitum Sovétríkjanna í uppreisninni í Ungverjalandi árið 1956. Faðir hennar hefði gegnt herþjónustu fyrir Bandaríkin og að eiginmaður hennar væri læknir í bandaríska hernum.

Í tilkynningu frá Russia Today segir að þetta útspil Wahl hafi einungis verið hennar leið til að koma sjálfri sér á framfæri.

Í viðtali við CNN segir Wahl að ekkert sé hæft í því. Hún hafi verið búin að fá nóg af því að flytja fréttir sem ekki væru réttar og að áróðurinn hafi farið á nýtt stig eftir að Úkraínu deilan magnaðist.

„RT snýst ekki um sannleikann, þetta snýst um að koma áróðri Pútíns til skila,“ segir Wahl í samtali við CNN. Hún bætir við að þetta snúist um að lítillækka Bandaríkin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert