Skýrt brot á stjórnarskrá landsins

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í dag að fyrirhuguð atkvæðagreiðsla meðal íbúa Krímskaga um að sameinast Rússlandi væri skýrt brot á stjórnarskrá Úkraínu og alþjóðalögum.

Í dag staðfesti Obama einnig refsiaðgerðir gegn þeim sem bandarísk yfirvöld telja að geti hindrað framgang lýðræðis í Úkraínu, stuðlað að ofbeldi eða gerst sekir um spillingu. Eignir þessara einstaklinga verða frystar og fá þeir ekki vegabréfsáritun til Bandaríkjanna. Evrópusambandið hefur þegar fryst eignir 18 Úkraínumanna sem eru sakaðir um fjárdrátt, þeirra á meðal er Viktor Janúkóvitsj, fráfarandi forseti Úkraínu. 

Evrópusambandið tilkynnti einnig í dag að það hygðist að hætta samningaviðræðum við Rússland um vegabréfsáritanir og efnahagssamstarf. Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna funduðu á neyðarfundi í Brussel í dag um ástandið í Úkraínu.

Í kvöld mun síðan öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hittast á fundi í New York (klukkan 19:30 að íslenskum tíma) og er fundurinn sá fjórði síðan á föstudag vegna ástandsins í Úkraínu. 

Frá Úkraínu í dag.
Frá Úkraínu í dag. AFP
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert