16 þúsund hermenn frá 16 löndum taka þátt í viðamikilli heræfingu í Noregi dagana 12.-19. mars nk. Æfingin er skipulögð af Atlantshafsbandalaginu og er markmið hennar að æfa viðbrögð við óvæntri innrás. Norski herinn tilkynnti þetta í dag.
Unnið hefur verið að skipulagningu æfingarinnar í langan tíma og kemur hún því ekki til vegna óróans á Krímskaga.
Æfingarnar fara fram í lofti, á sjó og í landi. Á æfingunni er gert ráð fyrir að ímyndað land hafi gert innrás inn í Noreg frá norðri. 9.000 norskir hermenn og 7.000 frá öðrum löndum Atlantshafsbandalagsins, meðal annars Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum, taka þátt í æfingunni.