Hvernig getur þota horfið?

Frá flugvellinum í Peking á laugardagsmorgninum
Frá flugvellinum í Peking á laugardagsmorgninum AFP

Þrátt fyrir ítarlega leit og samhæfðar aðgerðir björgunarsveita frá níu löndum hefur hvorki fundist tangur né tetur af malasísku þotunni sem hvarf af radarskjám fyrir tæpum þremur sólarhringum. Alls voru 239 manns um borð í flugi MH370 á leið frá Kuala Lumpur til Peking.

Áhafnir tugir skipa, flugvéla og þyrla taka þátt í leitinni á Suður-Kínahafi en vélin, sem var í um 35.000 feta hæð, hafði verið á lofti í um tvær klukkustundir í grennd við lögsögu Víetnams þegar hún hvarf aðfaranótt laugardags.

Ekki hægt að útiloka neitt

Yfirmaður flugmálayfirvalda í Malasíu, Azharuddin Abdul Rahman, segir að ekki sé hægt að útiloka neitt þar sem ekkert hafi fundist sem geti gefið vísbendingar um hvarf vélarinnar. Hann útilokar ekki hryðjuverk en ekkert neyðarkall kom frá flugstjórnarklefa vélarinnar áður en hún hvarf af radar.

Að sögn Rahmans hafa komið fram margar og ólíkar kenningar í fjölmiðlum. Margir sérfræðingar hafa tjáð sig um hvað hafi gerst og hvað hafi getað gerst án þess að nokkuð hafi komið fram sem getur upplýst um hvarfið. „Við erum líka forviða,“ bætti hann við á blaðamannafundi í morgun.

Rifjaði upp flug Air France árið 2009

Rahman minnti á að það hefði tekið meira en tvö ár að komast að niðurstöðu um hvers vegna Air France þota brotlenti árið 2009.

Tæknileg bilun og mannleg mistök leiddu til þess að farþegaflugvél franska flugfélagsins Air France hrapaði í Atlantshafið í júní árið 2009 með þeim afleiðingum að 228 manns fórust. Þetta er niðurstaða lokaskýrslu franskra flugmálayfirvalda um slysið sem birt var í júlí 2012.

Vélin, sem var af gerðinni Airbus A330, hvarf af ratsjám þegar hún var á leið til Parísar frá Río de Janeiro í Brasilíu. Flak vélarinnar fannst á floti í hafinu eftir gríðarlega umfangsmikla leit en leitarsvæðið var um tíu þúsund ferkílómetrar að stærð. Svarti kassi vélarinnar fannst hins vegar ekki fyrr en tveimur árum eftir að hún hrapaði.

Asíubúar á ítölskum og austurrískum vegabréfum

Ein helsta ástæðan fyrir því að ekki hefur verið útilokað að um hryðjuverk sé að ræða er sú að vitað er að tveir farþeganna um borð ferðuðust á stolnum vegabréfum. Búið er að bera kennsl á annan þeirra og samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra Malasíu er um útlending að ræða. Um var að ræða evrópsk vegabréf, samkvæmt grein í Guardian í dag en þeir sem notuðu vegabréfin hafi verið af asískum uppruna.

Hefur þetta vakið efasemdir um hæfi starfsmanna í útlendingaeftirlitinu á flugvellinum í Kuala Lumpur. Hvernig asískir farþegar sem ferðist á ítölsku og austurrísku vegabréfi geti farið í gegn óáreittir. Enda hefur forsætisráðherra Malasíu heitið því að öryggisreglur verði endurskoðaðar hjá útlendingaeftirlitinu.

Vegabréfunum var stolið frá Luigi Maraldi og Christian Kozel á síðustu tveimur árum og voru þau skráð í gagnagrunn Interpol yfir stolin vegabréf. Starfsmenn í vegabréfaeftirliti á flugvöllum eiga að kanna upplýsingar úr gagnagrunninum þegar farþegar fara um eftirlitið.

Á blaðamannafundinum í morgun staðfesti Rahman að fimm farþegar sem höfðu bókað sig í flugið hefðui ekki mætt um borð og því hefði farangur þeirra verið fjarlægður úr farangursrými vélarinnar líkt og gert er ef farþegar mæta ekki í flug.

Forsvarsmenn Malaysia Airlines segja að áherslan sé lögð á að veita aðstandendum farþega vélarinnar aðstoð en einhverjir þeirra eru þegar komnir til Kuala Lumpur. Tveir þriðju þeirra sem voru um borð í flugvélinni eru kínverskir.

Ættingjar hafa aftur á móti kvartað yfir því hversu litlar upplýsingar hefur verið hægt að fá frá flugfélaginu.

Kínverjar gagnrýna stjórnvöld í Malasíu

Leiðarahöfundur Global Times, sem er gefið út af kínverska ríkinu, lætur bæði malasísk stjórnvöld og flugfélagið heyra það í dag. Segir hann að hvorki stjórnvöld né flugfélagið geti firrt sig ábyrgð og að allt of seint hafi verið brugðist við þegar flugvélin hvarf.

„Það eru gloppur í starfsemi Malaysia Airlines og öryggiseftirliti,“ segir í leiðaranum. Ef slysið varð vegna tæknibilunar eða yfirsjónar flugmanna þá sé ábyrgðin hjá flugfélaginu. Ef um hryðjuverk er að ræða sé spurning um hvort þeir sem sinni öryggiseftirliti á flugvellinum séu starfi sínu vaxnir.

Á meðan ekkert miðar við leit að flugvélinni eru ættingjar þeirra sem voru um borð að missa vonina.

Alls voru 227 farþegar og 12 manna áhöfn um borð í Boeing 777 þotunni. þar af um 150 Kínverjar, 38 frá Malsíu, sjö frá Indónesíu, sex Ástralar, fimm Indverjar, fjórir Frakkar og þrír Bandaríkjamenn.

Var vélinni snúið við?

Einhverjar vísbendingar hafa komið upp um að flugvélinni hafi verið snúið við áður en hún hvarf en ekki hefur tekist að sanna neitt slíkt. Eins herma heimildir að það að vélin hafi verið í svo mikilli hæð er hún hvarf, það er 35 þúsund fetum, skýri hvers vegna ekkert brak hafi fundist þar sem það hafi getað dreifst á stórt svæði. Ekkert bendir heldur til þess að sprengja hafi sprungið um borð í vélinni né heldur að um vélarbilun hafi verið að ræða.

Bandaríkjamenn hafa farið ítarlega yfir myndir úr gervitunglum sínum sem eru á þessum slóðum án árangurs. Þetta er í annað skiptið á tæpu ári sem Boeing 777 þota lendir í alvarlegu í flugóhappi en það var þegar vél Asiana Airlines-flugfélagsins brotlenti við lendingu í San Francisco í júlí í fyrra. Rannsókn leiddi í ljós að flugmenn vélarinnar sáu ekki flugbrautina skömmu fyrir lendingu. Þrír létust í slysinu.

Eins brotlenti Boeing 777 þota British Airways á Heathrow flugvelli í Lundúnum árið 2008 en enginn lést í því slysi. Samkvæmt frétt AFP fréttastofunnar hafa Boeing 777 þotur verið í umferð frá því árið 1995 og eru þoturnar mjög vinsælar hjá flugfélögum sem fljúga lengri flugleiðir.

En á meðan ekkert er fast í hendi varðandi hvarf flugvélarinnar kvikna ýmsar sögusagnir og hafa ýmsir rifjað upp sögur af Bermúdaþríhyrningum.

Bermúdaþríhyrningurinn svokallaði er svæði á Norður-Atlantshafi sem má afmarka með þríhyrningi sem dreginn er frá Miami í Flórída til Bermúda-eyja og þaðan til Púertóríkó. Þar hafa yfir 50 skip og 20 flugvélar horfið frá því um miðja 19. öld, mörg án vísbendinga um afdrif þeirra.

Þessi undarlegu hvörf hafa vakið ýmiss konar sögusagnir, meðal annars um að á svæðinu sé hin sokkna borg Atlantis og af henni stafi dulmagni, eða þarna séu geimverur að verki. Jarðbundnari skýringar liggja þó fyrir og flestir vilja kenna um náttúru eða mannlegum mistökum, að því er segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Hér er hægt að lesa um Bermúdaþríhyrninginn í lesbók Morgunblaðsins frá árinu 1978

Leitað yfir Suður-Kínahafi
Leitað yfir Suður-Kínahafi AFP
Vegabréf skoðað á flugvellinum í Kuala Lumpur.
Vegabréf skoðað á flugvellinum í Kuala Lumpur. AFP
AFP
Fjölmiðlar um allan heim fjalla um hvarf vélarinnar.
Fjölmiðlar um allan heim fjalla um hvarf vélarinnar. AFP
Ættingjar bíða á milli vonar og ótta.
Ættingjar bíða á milli vonar og ótta. AFP
Olíubrák sem jafnvel var talin hafa komið úr flugvélinni
Olíubrák sem jafnvel var talin hafa komið úr flugvélinni STR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert