Assad hrósar Rússum

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. AFP

Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, sem hefur notið stuðnings rússneskra stjórnvalda, jós lofi á rússneska ráðamenn í morgun vegna íhlutunar þeirra í Úkraínu og sagði Rússa hafa komið á jafnvægi í alþjóðamálum.

Rússar hafa verið einir fárra bandamanna Sýrlandsstjórnar á alþjóðavettvangi eftir að óeirðir og mótmæli brutust þar út fyrir um þremur árum og hafa veitt þeim ýmsan stuðning, bæði diplómatískan og vopn. Talið er að a.m.k. 140.000 hafi látist í átökunum í landinu á þessum tíma.

Erindreki rússneskra stjórnvalda er nú í opinberri heimsókn í Sýrlandi og er erindi hans að heiðra Assad og veita honum inngöngu í rússnesku vísindaakademíuna fyrir að hafa styrkt böndin á milli Sýrlands og Rússlands.

„Rússland hefur komið komið á að nýju jafnvægi í alþjóðamálum eftir mörg ár þar sem Bandaríkin hafa haft töglin og hagldirnar,“ sagði Assad í viðtali við sýrlensku ríkissjónvarpsstöðina SANA. Assad sagði ennfremur að framganga Rússlands hefði verið lífsnauðsynleg og lýsti yfir aðdáun sýrlensku þjóðarinnar á afstöðu Rússa.

Assad sakaði ennfremur Bandaríkin og aðrar vestrænar þjóðir um að leitast við að valda ójafnvægi meðal þjóða sem hefðu aðra stefnu en þær sjálfar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert