Tengist ekki hryðjuverkahópi

Malasíska lögreglan birti myndir af mönnunum tveimur sem fóru á …
Malasíska lögreglan birti myndir af mönnunum tveimur sem fóru á fölsuðum skilríkjum um borð í vél Malaysia Airlines. AFP

Lögreglan í Malasíu telur að nítján ára Írani sem fór á fölskum skilríkjum um borð í malasísku flugvélina sem nú er saknað tengist ekki hryðjuverkahópi. Hann hafi ætlað til Þýskalands til að setjast þar að.

Lögreglan í Malasíu bar í gær kennsl á annan manninn sem fór um borð í vélina á fölsuðum skilríkjum.

„Við teljum ekki að hann tengist hryðjuverkahópi heldur teljum við að hann hafi ætlað að flytja til Þýskalands,“ segir lögreglustjórinn Khalid Abu Bakar. Enn hefur ekki tekist að bera kennsl á hinn manninn.

Flugvél Malaysian Airlines hvarf snemma á laugardag. Um borð eru 239. Umfangsmikil leit stendur yfir í hafinu í suðausturhluta Asíu.

Í ljós kom að tveir menn fóru um borð á fölsuðum skilríkjum. Þeim hafði verið stolið í Taílandi. Í kjölfarið spunnust sögur um mögulegt hryðjuverk.

Annar maðurinn er talinn vera Pouria Nour Mohammad Mehrdad. Hann er nítján ára. Hann notaði austurrískt vegabréf til að komast um borð. Eigandi þess hafði tilkynnt vegabréfið stolið.

Spurður af hverju lögreglan teldi unga manninn hafa ætlað að flytja til Þýskalands svaraði lögreglustjórinn að haft hefði verið samband við móður hans sem biði hans í Frankfurt. Frekari upplýsingar voru ekki gefnar.

Lögreglustjórinn segir að enn sé verið að rannsaka hvort hvarf vélarinnar sé saknæmt. Hins vegar sé ólíklegt að það tengist hryðjuverkum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert