Búið er að birta myndir úr gervihnetti sem eru taldar sýna brak úr farþegavél Malaysia Airlines sem ekkert hefur spurst til frá því um sl. helgi. Myndirnar hafa verið birtar á heimasíðu kínverskra stjórnvalda. Ekkert hefur hins vegar verið staðfest.
Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.
Þar segir að um þrjár myndir sé að ræða. Á þeim megi sjá stóra hluti sem fljóta á Suður-Kínahafi. Fyrri tilraunir til að finna brak úr vélinni hafa ekki skilað árangri.
Vélin, sem var að fljúga frá Malasíu til Kína, hvarf af ratsjá sl. föstudag. Alls voru 239 um borð í vélinni. Hún hvarf um það bil klukkustund eftir að hún hóf sig til flugs frá Kuala Lumpur og flaug hún suður af Ca Mau-skaga í Víetnam.