Íhuga að leggja ályktun um Úkraínu fyrir Öryggisráðið

Frá hafnarborginni Sevastopol á Krímskaga í Úkraínu í dag. Fólkið …
Frá hafnarborginni Sevastopol á Krímskaga í Úkraínu í dag. Fólkið heldur á spjöldum sem hvetja til sameiningar landsvæðisins við Rússland. AFP

Hópur vestrænna ríkja íhugar nú að leggja ályktun fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þar sem fyrirhuguð atkvæðagreiðsla á Krímskaga um sameiningu við Rússland verður fordæmd. Nokkuð ljóst þykir að Rússar muni beita neitunarvaldi sínu gegn ályktuninni.

Halda á atkvæðagreiðsluna á sunnudaginn og verði sameiningin við Rússland samþykkt er líklegt að af henni verði fljótlega. Stjórnvöld í Úkraínu og fjölmörg önnur ríki segja atkvæðagreiðsluna brjóta gegn alþjóðasamþykktum og hvetja Vladimír Pútín, forseta Rússlands, til að innlima ekki Krímskaga.

Í ályktuninni yrði lögð áhersla á fullveldi Úkraínu og yfirráð ríkisins yfir Krímskaga.

Öryggisráðið hefur nú fundað fimm sinnum um ástand mála á Krímskaga. Þar hafa fulltrúar Kína, eins helsta bandamanns Rússlands, ítrekað að ekki beri að blanda sér í innanríkismál einstakra ríkja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert