Karl á sjötugsaldri hefur verið látinn laus úr fangelsi í Louisianaríki í Bandaríkjunum eftir að hafa verið 25 ár á dauðadeild. Ástæðan er sú að dómi yfir honum var snúið við og hann sýknaður af morði sem hann hefur alltaf neitað að hafa framið.
Glenn Ford, 64 ára, hefur verið á dauðadeild frá því í ágúst 1988 en hann var dæmdur til dauða fyrir morð á 56 ára gömlum skartgripasala, Isadore Rozeman, árið 1983. Ford hafði unnið einstaka sinnum fyrir Rozeman en ekki í versluninni sjálfri.
Á vef BBC kemur fram að aldrei hafi nokkur setið jafnlengi á dauðadeild í Bandaríkjunum þar til dómi yfir viðkomandi hefur verið snúið við.
Þegar fréttamaður spurði Ford þegar hann yfirgaf öryggisfangelsið í Angola í Louisiana hvernig honum liði svaraði hann því til að hugur hans væri allur á sveimi en það væri gott.
Ford viðurkennir að hann sé gramur enda hafi hann setið á bak við lás og slá í tæp 30 ár fyrir glæp sem hann framdi ekki. Hann hafi misst mörg ár úr lífi sínu.
„Þrjátíu ár, þrjátíu ár af lífi mínu. Ég get ekki snúið til baka og gert allt það sem ég hefði átt að vera gera þegar ég var 35, 38 og 40. Slíka hluti. Þegar ég fór var sonur minn lítið barn en hann er nú fullorðinn og á börn.“
Dómi yfir Ford var snúið við í gær vegna nýrra upplýsinga sem styðja við orð Fords um að hann hafi hvorki verið nálægur né tekið þátt í því þegar Rozeman var myrtur. Lögfræðingar hans segjast vera þakklátir fyrir að sjá skjólstæðing sinn loks látinn lausan og að saksóknari og dómari hafi tekið undir það að Ford yrði látinn laus.
Samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla fagnar fjölskylda þess myrta að Ford hafi loks verið látinn laus.
Meðal þess sem bandarískir fjölmiðlar hafa nefnt varðandi rannsókn á morðinu er að ekkert morðvopn fannst og það voru engin vitni að morðinu.
Ford var fyrst tengdur við málið af konu sem síðar viðurkenndi að hafa logið. Sá sem var verjandi Fords í upphafi hafði aldrei komið að vörn í morðmáli. Ford, sem er blökkumaður, var dæmdur af kviðdómi þar sem allir kviðdómendur voru hvítir.
Ford var 34 ára þegar hann var handtekinn fyrst í nóvember 1983 fyrir vörslu muna sem hafði verið stolið í verslun Rozemans en skartgripasalinn hafði verið skotinn til bana í verslun sinni. Ford var síðan ákærður fyrir morðið í febrúar 1984 ásamt þremur öðrum, George Starks og bræðrunum Henry og Jake Robinson.
Eftir lausn Fords eru 83 karlar og tvær konur á dauðadeild í Louisiana.