Bandarískir flugumferðareftirlitsmenn telja að Boeing 777 þota Malaysia airlines hafi verið á flugi í fjórar klukkustundir eftir að síðast náðist samband við hana. Þetta kemur fram í Wall Street Journal í dag. Ef rétt reynist eykst enn dulúðin í kringum hvarf þotunnar á föstudagskvöldið.
Í WSJ kemur fram að flugmálayfirvöld og Þjóðaröryggisstofnunin byggi þetta á gögnum sem er sjálfvirkt hlaðið niður og sendar til jarðar úr Rolls Royce-hreyflum. Miðað við þau gögn flaug Boeing 777-þotan alls í fimm klukkustundir. Segist WSJ hafa þessar upplýsingar frá heimildarmönnum sem þekkja vel til.
Þetta getur þýtt að þotan hafi getað, með 239 um borð, flogið hundruð mílna eftir að síðast náðist samband við flugumsjón um klukkan 1:30 aðfaranótt laugardags að staðartíma, klukkan 17:30 að íslenskum tíma á föstudag. Þá var klukkustund liðin frá því hún lagði af stað frá flugvellinum í Kuala Lumpur á leið til Peking.
Víðtæk leit stendur yfir og er leitarsvæðið gríðarlega umfangsmikið eða allt frá Suður-Kínahafi vestur að Malasíu. Þegar hefur verið leitað á svæði sem spannar 27 þúsund sjómílur.
Enn er flugrán meðal þess sem skoðað er og bandaríska leyniþjónustan (CIA) segir að ekki sé hægt að útiloka hryðjuverk.
Í grein WSJ kemur fram að bandarískar eftirlitsstofnanir skoða nú möguleikann á því að flugmaður eða einhver annar um borð hafi flogið vélinni á einhvern óþekktan stað eftir að hafa slökkt á ratsjársvara hennar svo ekki væri hægt að greina hana á ratsjárskjám.